Mitt svæði

PCOS & átraskanir

pcos May 09, 2021

Átröskun er geðröskun sem einkennist af alvarlegum truflunum á matarvenjum og hegðunarmynstri tengt stjórnun líkamsþyngdar. Einstaklingur sem þjáist af átröskun verður oft heltekinn af hugsunum um mat, þyngd og útliti og byggist sjálfsmyndin að stóru leiti á getunni til að stýra þessum þáttum. Átraskanir geta komið fram hjá fólki á öllum aldri og kyni en þeim er almennt skipt í eftirfarandi flokka; lystarstol (anorexia nervosa), lotugræði (bulemia nervosa), átröskun ekki nánar skilgreind (ednos) og átkastaröskun/lotuofát (binge eating disorder). Töluverð skörun er á milli greiningarflokka og er algengt að sjúklingar flytjist á milli flokka.

Það er algengur misskilningur að átröskun sjáist utan á fólki og þjáist fólk af öllum stærðum og gerðum af átröskun. Í raunninni er lang minnsti hluti fólks með átröskun í undirþyngd og líta margir út fyrir að vera heilbrigðir þrátt fyrir veikindin. Átröskunum fylgir mikil andleg vanlíðan, þunglyndi og kvíði ásamt félagslegri einangrun. Það er mjög mikilvægt að fá viðeigandi hjálp fyrir þann sem veikist þar sem átraskanir eru alvarlegt heilsufars vandamál sem valda mikilli truflun á lífi einstaklingsins. Orsakir átraskana er flókið samspil umhverfis og erfða og er það mjög einstaklingsbundið hvaða ytri þættir geta "triggerað" sjúkdóminn. En algengt er að átraskanir þróist í kjölfar megrunarkúra þar sem viðkomandi ætlar að losa sig við nokkur kíló en missir á endanum tökin. 

Nýlegar rannsóknir sem kannað hafa algengi átraskanna meðal kvenna með PCOS benda til þess að hærra hlutfall kvenna með PCOS sé að kljást við neikvæða líkamsímynd, óheilbrigt samband við mat og átraskanir samanborið við konur sem ekki eru með PCOS. Athyglinni hefur sérstaklega verið beint að átkastaröskun (binge eating disorder) þar sem þessar rannsóknir benda til að sú tegund átröskunar sé sérstaklega algeng meðal hópsins.

Átkastaröskun einkennist af endurteknum átköstum þar sem viðkomandi upplifir stjórnleysi meðan á átkastinu stendur. Átkast lýsir sér þannig að viðkomandi borðar mikið magn af mat á stuttum tíma án þess þó að vera endilega svangur, oftast í einrúmi og verður yfirleitt óþægilega saddur. Þessu fylgir mikil sektarkennd, niðurrif og vanlíðan. Átkastaröskun fylgir þó engin losunarhegðun (t.d. uppköst) eins og þegar um ræðir lotugræðgi þ.e. búlemíu og eru því margir sem kljást við átkastaröskun ekki meðvitaðir um að um átröskun sé að ræða. Maður heyrir oft orð eins og matarfíkn, lítill viljastyrkur og stjórnleysi í kringum mat þegar fólk greinir frá slíkri hegðun hjá sjálfu sér.

Átkastaröskun getur, eins og aðrar átraskanir, haft alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu einstaklingsins. Áhrifin á líkamlega heilsu geta t.d. verið auknar líkur á sykursýki af tegund 2, hækkuðum blóðþrýstingi, hjartasjúkdómum, hækkuðu kólesteróli og ýmsum krónískum verkjum.

Talið er að nokkur atriði spili stórt hlutverk í þeirri þróun að hátt hlutfall kvenna með PCOS séu annaðhvort að kljást við óheilbrigt samband við mat eða uppfylli jafnvel greiningarmerki fyrir átkastaröskun:

  • Má þar fyrst nefna sterk skilaboð um að mikilvægt sé að léttast til að ná tökum á einkennum. En ráðleggingar um þyngdartap geta leitt af sér stífa megrunarkúra sem erfitt er að halda út og geta ýtt undir svokallaða "jójó"-þyngd, óheilbrigt samband við mat og hjá sumum orðið ,,trigger“ að átröskun.
  • Í öðru lagi má nefna skort á stuðningi en lítið hefur verið um úrræði bæði hér á landi og víða erlendis fyrir konur með PCOS og eru læknar oft þétt settnir. Konur eru því oft að krafla sig í gegnum upplýsingaflæði á netinu og upplifa sig einar.
  • Í þriðja lagi hafa óraunhæfar staðalímyndir í gegnum tíðina haft áhrif á margar konur og spilað hlutverk í þróun þess hversu margar konur þjást af neikvæðri líkamsímynd.
  • Að lokum eru margar konur með PCOS með insúlínviðnám sem getur ýtt undir ,,cravings“  í auðmeltanleg kolvetni sem er einmitt það sem konur með PCOS fá oft skilaboð um að forðast alveg. Þetta getur búið tilillvígan vítahring.

Í  ljósi þessa og þeirra afleiðinga sem slík átröskun getur haft á heilsufar sem og hvað megrunarkúrar geta spilað stórt hlutverk í þeirri þróun, hefur fremstu sérfræðingum á sviði PCOS þótt enn mikilvægara að færa fókusinn af þyngdartapi og yfir á heilsusamlegar venjur í meðhöndlun við PCOS. Með slíkri nálgun er áhersla lögð á að koma á fót bættum lífsvenjum sem rannsóknir benda til að geti stutt við það að minnka einkenni og bætt lífsgæði viðkomandi. Með því móti aukast líkurnar á að við komum á fót venjum sem hægt er að halda út til frambúðar án þess að skapa þessa hættu á að þróa með sér óheilbrigt samband við mat og í verstu tilfellunum átraskanir.

Til ykkar sem eruð greindar með PCOS og mögulega tengið við eitthvað af ofantöldu, vil ég benda á mikilvægi þess að fara hægt að stað ef gera á einhverjar breytingar á lífsvenjum og reyna að setja áhersluna á annað en þyngdartap.  Að taka fókusinn af þyngdartapi getur reynst mörgum erfitt þar sem það er svo rótgróið í okkar hugsunarhætti og samfélagi þegar kemur að heilsu en svo mikilvægur þáttur í átt að bæði heilbrigðu sambandi við mat og bættum lífsvenjum til frambúðar.

Minnið ykkur líka á að það þarf ekki að kollvarpa öllu á einu bretti, t.d. taka mataræðið, hreyfingu og svefn allt í gegn á sama tíma. Við viljum forðast streitu sem er oft nóg af fyrir í nútímasamfélagi og getur þar að auki gert öll einkenni verri. Góðir hlutir gerast hægt (róm var ekki byggð á einum degi og allt það).

Í hraðanum í nútímasamfélagi geta bæði kröfurnar og væntingarnar orðið ansi háar og það getur reynst okkur erfitt að halda svona mörgum boltum á lofti í einu. Mörg okkar upplifa samviskubit ef við reynum að slaka á og getur upplifunin oft verið þannig að maður sé ekki að standa sig á neinum vígstöðum. Það er því ekki skrítið að mörg okkar upplifa streitu einkenni sem geta haft áhrif á okkar andlegu og líkamlegu heilsu svo ég tali nú ekki um lífsgæði almennt.

Það að greinast með heilkenni á borð við PCOS er nógu streituvaldandi útaf fyrir sig: fullt af nýjum upplýsingum sem þarf að melta, mögulega þarf að byrja á nýjum lyfjum, spá í næringu og öðrum lífsvenjum á annan hátt og þar með leita sér ráða úr ógrynni  upplýsinga þar sem erfitt er að greina rétt frá röngu.  Það er því ekki skrítið að sumum fallist hendur.

Þarf ekki "allt eða ekkert" leið til að minnka einkenni PCOS! Það er í góðu lagi að taka sér sinn tíma í þær breytingar sem geta haft jákvæð áhrif og einmitt mun líklegra til árangurs til lengri tíma litið og minna streituvaldandi.  Því vil ég hvetja ykkur til að taka lítil skref í einu og reyna að einblína á einn til tvo hluti sem myndi breyta mestu fyrir ykkur akkúrat núna.

Þangað til næst,