Mitt svæði

PCOS - stutt yfirlit

pcos May 09, 2021

Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni eða PCOS er einn algengasti innkirtlakvillinn sem leggst á konur á barneignaaldri. Talið er að hann hrjái um 5 - 12 % kvenna en þessar tölur eru þó eitthvað á reiki.

Þrátt fyrir algengi er PCOS það heilsufarsvandamál sem hefur fengið hvað minnstan fjárstuðning samkvæmt tölum erlendis frá og þar af leiðandi hefur rannsóknum á þessu viðfangsefni verið ábótavant. Við sjáum þó sem betur fer einhverjar breytingar þar á og er áhugi vísindamanna að aukast og er skilningur á heilkenninu þar af leiðandi að verða betri. 

Algengustu einkenni eru blæðingaóregla, hækkaður styrkur kynhormóna (androgena) og blöðrur á eggjastokkum. Hátt hlutfall kvenna með PCOS er einnig með svokallað insúlínviðnám. En birtingarmynd getur þó verið mjög mismuandi milli kvenna.

Orsakir heilkennisins eru ekki að fullu þekktar en talið er að erfðaþátturinn sé sterkur, nokkrar tilgátur hafa verið settar fram sem möguleg skýring t.d. útsetning fyrir hormónabreytandi efnum í móðurkviði og bólgumyndun í tengslum við lélega þarmaflóru.  Því er oftast talað um PCOS sem heilkenni sem orsakast af flóknu samspili umhverfis og erfða. 

PCOS tengist oft (þó alls ekki alltaf) hærri líkamsþyngdarstuðli og aukinni tilhneigingu til þyngdaraukningar og þar af leiðandi hefur konum sem greinast með PCOS oft á tíðum verið ráðlagt að létta sig. Einnig benda rannsóknir til að hátt hlutfall kvenna með PCOS séu með neikvæða líkamsímynd sem ýtir enn frekar undir að þær fylgi þeim ráðum.

Slík ráð og megrunartilraunir geta hins vegar gert málin enn verri. Þegar áherslan er lögð á þyngdartapið sjálft felur það oft í sér stífar reglur í mataræði, orkuskerðingu ásamt útilokun á fæðutegundum. Við slíkar aðferðir léttist viðkomandi ef til vill fyrst um sinn og finnur jafnvel mikinn mun á einkennum og vellíðan.

Vandamálið við þessa ytri stýringu á matarinntöku og orkuskerðingu er hins vegar að í mörgum tilfellum verður það erfitt að halda út til lengdar og sýna rannsóknir að langtímaárangur er lélegur (sem skýrist af mörgum lífeðlisfræðilegum ástæðum).

Eftir að viðkomandi “gefst upp” er algengt að tímabil fylgi í kjölfarið sem einkennist af "stjórnleysi" og mikilli neyslu á þeim matvælum sem voru bönnuð. Slíku tímabili fylgir oft mikið sjálfsniðurrif og skömm og er hætta á að viðkomandi setji sér enn stífari reglur um nýtt mataræði.

Þetta getur búið til ákveðinn vítahring þar sem viðkomandi skiptist á að fara í megrun og “missa tökin”. Til lengri tíma litið hafa slíkir hringir mun verri áhrif á einkenni og geta hækkað insúlín sem var einmitt það sem átti að laga í upphafi. Einnig getur þetta haft áhrif á andlega líðan og er oft upphafið að óheilbrigðu sambandi við mat og í verstu tilfellunum átröskunum. En rannsóknir benda til að hærra hlutfall kvenna með PCOS sé að kljást við átröskun samanborið við aðra.

Vísindamenn á þessu sviði hafa því viljað setja fókusinn á bættar lífsstílsbreytingar í meðhöndlun á einkennum í stað þess að leggja áherslu á þyngdartap. Lífsstílsbreytingar sem fólk getur tileinkað sér til frambúðar. En mikil áhersla er lögð á slíkar breytingar við meðhöndlun PCOS (þó lyf séu einnig notuð) og sýna rannsóknir að þær hafi mikið vægi þegar kemur að meðhöndlun á einkennum.

Þær lífsvenjur sem lögð er áhersla á í meðferð snúa að svefni, hreyfingu,  næringu (bæði máltíðarmynstri og máltíðarsamsetningu), fæðubótarefnum og streitustjórnun. Að gera breytingar til hins betra á sínum lífsvenjum getur verið erfitt verkefni og er því mikilvægt að taka lítil skref í einu og reyna gera það með samkennd í eigin garð.

Þangað til næst,